
16/08/2025
Hress og skemmtilegur tuttugu og sjö manna Útivistarhópur á aldrinum 60+ dvaldi fjóra daga í Strútsskála dagana 11. – 14. ágúst sl.
Á komudegi var farin hressingarganga inn í Krókagil þar sem hægt var að sjá hinar ýmsu kynjaverur í náttúrunni. Næsta dag var gengið að Strútslaug þar sem flestir úr hópnum böðuðu sig í lauginni og einhverjir skoluðu síðan af sér í jökulánni að baði loknu. Á þriðja degi var stefnan tekin umhverfis og upp á fjallið Strút. Hluti hópsins fór umhverfis fjallið á meðan aðrir fóru uppá topp. Þennan dag var bjart yfir og útsýni til allra átta og því dásamlegt að njóta fegurðarinnar sem þarna bar fyrir augu.
Skipulag ferðarinnar var þannig að sameiginlegar máltíðir voru á borðum öll þrjú kvöldin, nokkuð sem skapaði samheldni og gott samstarf. Undirbúningur og frágangur gekk eins og vel smurð vél, allir tóku þátt og gengið var til verka án þess að nokkurn tíma þyrfti að biðja um slíkt.
Einstaka farþegar völdu að njóta verunnar í skála og fara í stuttar göngur í nágrenni hans, en við hin nutum góðs af dugnaði þessa fólks því þau tóku á móti okkur með kaffi, heitu súkkulaði, kleinum og pönsum. Það er óhætt að fullyrða að einginn fór svangur heim úr þessari fjögurra daga ferð í Strút, þarna var góður matur á borðum sem farþegar kunnu vel að meta.
Gestrisni hefur gjarnan einkennt okkur Íslendinga í gegnum aldirnar. Hannes Smári, skálavörður í Strút tók einstaklega vel á móti okkur, lét okkur upplifa að við værum einstök, sem við auðvitað erum. Gönguhópur 60+ sýndi einnig gestrisni í verki; við gáfum erlendum göngumönnum í tvígang afganga af mat sem við náðum ekki að torga, buðum skálaverði og gesti hans í mat og okkar einu sönnu Íbí var einnig boðið til borðs þegar hún leit við í Strút. Við buðum þrem ameríkönum upp í rútuna við Bláfjallakvísl, þeir alsælir með að þurfa ekki að fara í vaðskóna.
Á heimleið var stoppað á þrem áhugaverðum stöðum; Eftir að hafa farið yfir sögu mannfalls á Mælifellssandi á árum áður var farið að Slysaöldu og minnismerki um fallna fjórmenninga sem þar fórust skoðað. Því næst var gengið að fallegum fossi sem fellur úr Bláfjallakvísl, áður en Gluggafoss í Fljótshlíð var heimsóttur.
Fljótlega eftir að skráning hófst varð uppselt í ferðina í Strút. All nokkrir voru á biðlista og leitt að geta ekki boðið þeim með. En leikurinn verður endurtekin að ári, 6. – 9. ágúst 2026.
Fararstjórar voru: Guðrún Frímannsdóttir, Guðrún Hreinsdóttir og Guðbjartur Guðbjartsson, en Guðrún Hreinsdóttir hljóp í skarðið fyrir Jóhönnu Benediktsdóttur sem því miður forfallaðist.