13/08/2025
🌹🌼Blómstrandi dagar í 30 ár 🌻🌷
Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar í Hveragerði fagnar í ár 30 ára afmæli og fer hún fram 14.–17. ágúst. Hátíðin var fyrst haldin sumarið 1995, á þeim tíma sem bæjarhátíðir voru að ryðja sér til rúms víða um land.
Upphaflega stóð hópur áhugafólks úr atvinnulífi Hveragerðis að hátíðinni með það markmið að kynna bæinn og laða gesti til hans. Fyrstu sumrin sem hátíðin var haldin fóru Blómstrandi dagar fram þrjár helgar: ein í júní og ein í júlí sem voru ætlaðar gestum, og ein í ágúst fyrir bæjarbúa sem var eins konar uppskeruhátíð. Frá 1997 var hátíðin haldin tvær helgar, en frá árinu 2000 hefur hún farið fram eingöngu í ágúst, nema árið 2002 þegar hún var tvívegis.
Frumkvöðlar Blómstrandi daga voru m.a. Herdís og Erna Þórðardætur, Birgir S. Birgisson, Aðalheiður Ásgeirsdóttir, Kristinn Grétar Harðarson og Ásgeir Egilsson. Þau sáu um dagskrá, bókuðu viðburði, öfluðu styrkja og auglýsinga, sáu um dreifingu efnis á hvert heimili í bænum og lögðu mikið á sig svo að hátíðin yrði að veruleika. Vinnan bar árangur, þúsundir gesta mættu fyrsta sumarið og dagskráin var glæsileg, með brekkusöng í Lystigarðinum Fossflöt sem hápunkt sem síðan hefur verið fastur liður á Blómstrandi dögum.
Um aldamótin tók Hveragerðisbær við skipulagningu hátíðarinnar og hefur haldið utan um hana síðan. Blómstrandi dagar hafa farið fram á hverju ári að undanskildum árunum 2020 og 2021 þegar hátíðin féll niður vegna samkomutakmarkana.
Blómstrandi dagar eru fyrir löngu orðnir ómissandi hluti af bæjarlífi Hveragerðis. Meðal fastra liða eru brekkusöngur í Lystigarðinum, flugeldasýning, tónleikar, markaðir, leiktæki, heilsutengd dagskrá, garða- og götuskreytingar og blómaball. Frá árinu 2007 hefur Ísdagur Kjöríss einnig verið fastur þáttur hátíðarinnar, þar sem boðið er upp á fjölbreytt úrval ísbragðtegunda.
Hvaða góðu minningar átt þú frá Blómstrandi dögum?