
22/07/2025
Velheppnuð Skálholtshátíð að baki
Skálholtshátíð var að venju haldin á Þorláksmessu á sumar og var mikið um dýrðir á fallega staðnum okkar. Skálholtshátíð safnar saman fólki hvert ár, í kringum listir, helgihald, göngur, sögu og upplifanir, í minningu Þorláks helga Þórhallssonar, verndardýrlings Íslands.
Í ár var yfirskrift hátíðarinnar „Á eina bókina – eitt í Kristi“. Var athyglinni m.a. beint að starfi Brynjólfs Sveinssonar biskups (1605-1675), þess mikla snillings og bókasafnara, á sérstöku málþingi með þáttöku sérfræðinga í kirkjusögu og íslenskum handritum. Í því samhengi var einnig tekið á móti bókasafni sr. Sigurbjörns Einarssonar sem verður til heimilis í Skálholti. Einnig var opnað fyrir almenningi bókasafnið sem hefur kúrt í turni Skálholtskirkju en hefur núna fengið verðugan og aðgengilegan sess í Bókhlöðu Skálholts.
Annað málþing sem var vel sótt, var haldið í tilefni 1700 ára afmælis Níkeujátningarinnar og þar var líf Kirkjunnar sem játandi kirkju tekið til skoðunar út frá samtímanum. Þar lögðu til málanna innlendir og erlendir álitsgjafar og áhrifavaldar á sviði samkirkjumála.
Hefð er fyrir því að Skálholtskórinn skíni á hátíðinni og á því varð engin breyting. Að auki var vígður og tekinn í notkun Steinway flygill Skálholts sem gladdi og hóf upplifun viðstaddra á æðra plan með sínum fögru tónum.
Skálholtshátíð er ekki síst vettvangur sem vinir Skálholts hittast og eiga saman góða stund. Í hátíðarmessunni þjónuðu leikir og lærðir víða að komnir, vígslubiskup prédikaði og alvöru íslenskt kirkjukaffi á eftir.
Hátíðarsamkoma Skálholtshátíðar er viss hápunktur helgarinnar. Nú töluðu Guðrún Nordal, Jón Kalman Stefánsson, Dirk Lange og biskup Íslands til viðstaddra og Skálholtskórinn undir stjórn Jóns Bjarnasonar glöddu eyrun.
Ekki skal gleyma að þakka fyrir þátttöku pílagríma á öllum aldri, en áralöng hefð er fyrir því að hópur gangi frá Borgarfirði til Skálholts þessa helgi og taki virkan þátt í hátíðarmessunni. Í ár var líka athyglinni beint að ungum pílagrímum sem fengu sína sérstöku göngu, og einnig var haldin sérstök dagskrá um fornleifarannsóknir á staðnum við hæfi hinna yngri.
Skálholtshátíð 2025 var sannarlega veisla í gleði, trú, kærleika og von. Við þökkum fyrir allt og allt, sjáumst að ári.